top of page
plakat14.png
Asset 3-8.png

Jómar

 

Jómar er aðalpersóna sögunnar. Hann er ungur maður sem ferðast hefur yfir hálfan heiminn, alla leið frá hinum köldu Markhólum til suðrænu borgarinnar Úlrikshafnar. Leið hans suður eftir var löng og erfið. Lengri og erfiðari en flesta gæti grunað.

Markhólar voru afskekkt sveit sem skipti sér lítið sem ekkert af heiminum utan fjallanna sem umkringdu hana og þaðan kemur mest allt snubbótta uppeldi Jómars. 

 

Lífið í Markhólum var slæmt, þótt hann hafi lengi verið of vitlaus til að skilja það. Líf hans eftir að hann kvaddi heimalendur sínar var lítið skárra. Lengi fylgdi hann hópi vondra manna og vistin með þeim var martröð líkust. Eftir að leiðir hans skildu við þann hóp ferðaðist hann að mestu einsamall og þá fann hann fyrst hversu kuldalegar Norðursveitir gátu virkilega orðið, sérstaklega ef hann var lífhræddur aðkomumaður með tóma vasa.

 

Borgin Úlrikshöfn var einn af fáum stöðum heimsins sem Jómar hafði heyrt af þegar hann yfirgaf heimasveitina. Þar átti að búa elskulegt og örlátt fólk sem virtist nánast yfirnáttúrulegt í útliti og burðum. Í Úlrikshöfn var að finna auð og hamingju, lengst fyrir sunnan.

   Jómar ákvað að fara þangað í leit að fjársjóðum og ævintýrum en ekki síður til að eltast við sakleysi æsku sinnar og til að komast eins langt burt frá Norðursveitum eins og hægt væri.

 

Aðkomumaðurinn í hverfinu austan við Eystri brú er talinn nokkuð glórulaus. Hann hefur ekki mikla reynslu af nokkru, veit og þekkir fátt og hagar sér nokkuð undarlega en flestir horfa framhjá því.

   Hann þráir tilgang og festu í líf sitt, elskulegt fólk, frelsi og framtíð að njóta. En hann á erfitt að taka við þeim heillum sem berast honum.

   Hann getur verið mjög ragur og afturhaldinn ef raunveruleiki hanns gerist of raunverulegur en ef hann lætur sem hann sé staddur í ævintýraheimum vex honum kraftur og þá er hann til í hvað sem er.

Jómar er voðalega góðhjartaður maður með sterka og sjálfstæða réttlætiskennd. Hann veltir mikið fyrir sér muninum á réttu og röngu, en stundum þvælist það fyrir honum hvar mörkin liggja nákvæmlega.

   Hann skammast sín fyrir fortíð sína og heldur henni út af fyrir sig einan. Hann dæmir sjálfan sig harkalega og óttast að aðrir gætu gert það sama. Hann óttast að verða aftur einn.

   Hann ber sterkar tilfinningar og er gjarn á að láta þær stjórna sér. Stundum leiðir það til þess að hann geri það rétta í stöðunni en stundum er hann með eintómt vesen.

Rósmáría1.jpg

Rósmáría

 

Rósmáría er eldri kona sem leigir herbergi við hliðina á Jómari á gistiheimilinu austan við Eystri brú í Úlrikshöfn. Hún býr þar ein og hefur gert lengi, er löngu hætt að vinna og virðist hafa það nokkuð gott. Þar sem hún hefur aldrei eignast börn þarf hún að stóla mikið á vini og kunningja til að aðstoða sig í ellinni en hana skortir ekki velunnara.

   Hún hefur ávallt gengið við staf síðan hún var ung og því hefur hún þurft að læra að taka lífinu með svolítilli ró. En það þykir henni bara betra því í asanum missir hún ekki af öllu þessu fólki sem hefur svo góðar sögur að segja.

Þessi gamla kona er oft álitin ein besta fréttaveita hverfisins og stundum leitar fólk til hennar í leit að slúðri eða ráðum. Hún býr líka yfir þekkingu sem hinir menntuðustu menn hafa enn ekki komist yfir með rannsóknum sínum og lestri. Margt verður aldrei lært upp úr bók.

   Hverfið þeirra er lítið og lágstemmt og flestir sem þar alast upp halda annað í borgina þegar á fullorðinsár er komið, en hún þekkir vel flesta granna sína sem hafa kosið að búa áfram í sínu heimahverfi. 

Hún hefur ágætis áhrif á Jómar og reynir að siða hann aðeins til. Hún var ekki lengi að hæna hann að sér með smá mat og forvitnisspjalli. Hann leitar nokkuð til hennar eftir mat og félagsskap og til að aðstoða hana.

Stundum er eins og hún sjái í gegnum Jómar og fynni oft réttu orðin til að segja þótt hún fái hann ekki til að opna sig mikið. Hún hefur róandi og traustvekjandi nærveru og ber hag annarra fyrir brjósti.

Hún er góður og sterkur klettur og gefst ekki auðveldlega upp á þeim sem þurfa smá aðstoð í lífinu, hversu lengi sem þeir eru að átta sig á því sjálfir. Hún hvetur vinafólk sitt áfram til dáða þótt hún geti ekki fylgt þeim í afrekum sínum. Henni nægir að vita að allt fari á besta veg. Allt fer á besta veg á endanum.

   Jómar má hrósa happi að hafa fengið að kynnast henni þegar hann kom til borgarinnar. Það er granna hans að þakka hversu góð og sterk sambönd hann hefur innan hverfisins og hversu vel er hreinsað fyrir hans dyrum og mannorði hans. Hún vekur upp bestu eiginleika Jómars svo hann geti lært að þekkja sig aftur.

 

Rósmáría hefur alla sína tíð búið í þessu hverfi og hvergi annars staðar viljað vera. Hún hefur horft upp á samfélagið þar þróast hratt og mikið á undanförnum áratugum. Hún þekkir alla gleði og sorgir hverfisins og skilur vel fólkið í kring um sig. Hún er hlynnt flestum þeim breytingum sem orðið hafa á samfélaginu þar sem fólki er æ meira gert að taka lífinu með stillu og leysa erjur og vandamál með ástina að leiðarljósi.

Jón Þjóstur.jpg

Jón Þjóstur

 

Jón þjóstur er eini kaupmaður hverfisins austan við Eystri Brú. Hann vinnur einn í versluninni og stendur þar einn allar vaktir. Hann sér sjálfur um allar pantanir á vörum inn í hverfið og tekur við afhendingum. Hann reynir að svara sem mestri eftirspurn í hverfinu en auðvitað rekur hann bara einn eina litla verslun og oft þarf fólk að leita út úr hverfinu á stærri markaði til að finna það sem hann selur ekki.

   Hann þekkir flesta í hverfinu og þótt hann sé stundum dómharður og hóflaus í fasi er hann almennt vel liðinn og vinadrjúgur, áhrifamikill og sleipur í samskiptum.

Á sínum tíma tók hann við öllum rekstri verslunarinnar eftir föður sinn. Ef hann hefði ekki tekið við keflinu hefði það fallið í hendur eldri systur hans, en hann ákvað að taka þessa ábyrgð á sig svo hún gæti elt ástina burt úr hverfinu og sest að annars staðar í borginni. 

   Hann á mestmegnis í bréfasamskiptum við systur sína þar sem þau hafa hvort um sig nóg að gera, hann með rekstur búðarinnar og hún með stóra fjölskyldu. Sjálfur festi hann aldrei ráð sitt en hann samgleðst systur sinni sem gekk í blandað hjónaband. Hann minnist varla á systur sína almennt en hugur hans er hjá henni flestar stundir og hann hefur ekki séð eftir neinu í hennar garð.

Jón Þjóstur hefur unnið í búðinni mest alla sína ævi og hann er mjög agaður og óvæginn þegar kemur að rekstrinum. Verslunin hans er með þeim dýrari í borginni þar sem það kostar meira að flytja vörurnar til svona afskekts hverfis langt í burtu frá höfninni. Hann slær ekki af verðinu fyrir einstaklinga né lánar fé og hann verslar ekki við þjófa né fólk í annarlegu ástandi.

Hann er þó ekki jafn elskulegur við alla og á tímum getur hann virst ógnandi og yfirgnæfandi, sérstaklega þegar hann á í kasti við hverfisfíflið. Samskipti þeirra ná langt aftur og hafa aldrei verið góð, endurspeigluð af öfund og fyrirlitningu og skömm á báða bóga.

   Hann hefur fundið valdið sem fylgir hatri og reiði, en því valdi fylgir í kjölfarið oftast sár eftirsjá og tómt hjarta. Nóg verður aldrei nóg og alltaf má ganga lengra uns of langt er gengið og þá verður aldrei snúið aftur. Það var aldrei rétt af honum að misbeita valdi sínu, hann veit það, en þegir enn yfir því enn mörgum árum síðar.

Hann hefur mikið róast og agast með aldrinum en hann er enn mjög ákveðinn og jafn vel frekur. Hann veit sjálfur að hann getur verið óþarflega nærgengur og vægðarlaus en innst inni meinar hann oftast vel. Hann á það samt til í réttum félagsskap að baktala fólk hrottalega sem honum mislíkar, hreyta ónotum í fólk og jafn vel efla til múgæsings.

   Eins hávær og fyrirferðamikill eins og hann getur verið, hrokafullur, stoltur og þrjóskur, þá er það kannski bara leið hans til að fela hversu lítill hann er innst inni. Jómar skilur það ekki. Fyrir honum eru stórir menn bara stórir en ekki litlir.

dagmar.jpg

Dagmar

 

Dagmar er ein af nágrannakonum Jómars og býr í gríðarstóru glæsihýsi í sömu götu og hann. Hún kemur vel fyrir en á það til að vera svolítið kærulaus, hrekkjótt og barnaleg. Stundum vefjast mörkin milli saklausra hrekkja og skaðlegrar stríðni fyrir henni en hún bætir fyrir þessa vitleysu sína með jákvæðri útgeislun og bjartsýni.

   Hún á marga góða kunningja en ekki svo marga nána vini, en eitthvað smellur milli þeirra Jómars og með tímanum þróa þau með sér sterk bönd.

 

Þótt Dagmar komi vel fyrir og enginn hafi nokkuð út á hana að setja þá er hennar skilningur á heiminum annar en flestra Úlrikshafnarbúa. Hún fæddist í ánauð sem er lögleg undir ströngum skilyrðum í Úlrikshöfjn, en hún var ein af þeim heppnu og henni var keypt frelsi. 

   Af þessum sökum tengir hún sérlega vel við Jómar, því þótt hún hafi enga staðfestingu á því grunar hana að fortíð þeirra beggja sé ekki svo ólík eftir allt saman. Þau skilja hvort annað.

 

Skömmu eftir að hún varð frjáls kona giftist hún manninum sem hafði frelsað hana ásamt þrem konum sínum sem hann var giftur fyrir. Hún er fjórða eiginkonan í þessu stóra hjónabandi og unir sér vel á fallegu og góðu heimili. Henni semur vel við hjónsystur sínar og elskar manninn sinn heitt. Hún hefur milli handanna allt sem hún þarf og allt sem hana gæti nokkurn tíman vantað, hún þarf aldrei að strita aftur á ævinni eða sitja undir nokkurskonar kúgun. 

 

Þrátt fyrir það á hún það til að fara á bak við fjölskyldu sína og hrella þau, en henni finnst bara svo gott þegar þau koma aftur til hennar til að fyrirgefa henni eins og hún hefur svo oft fyrirgefið.

   Hjónsystur hennar og eiginmaður vita vel af laumum hennar og bellibrögðum en eftir allan þennan tíma saman má segja að þau hafi lært að þola þessi uppátæki Dagmarar og lært að lifa með þeim að mestu. Þau hafa rekið sig á það að það borgar sig ekki að taka slaginn við hana og elltast við þessa feluleiki hennar. Hún breytist seint úr þessu.

 

Dagmar er eilífðar-gelgja sem á það til að rugga bátnum aðeins en hvar sem hún sér tækifæri til vill hún vera eins og allir aðrir og gera heiminn að betri stað. Hún er sannfærð um að lífið sé gott og tilvist hennar gæti ekki verið betri, en eitthvað vantar enn. Hún veit bara ekki alveg hvað það gæti verið.

   Kannski þarf hún bara Jómar litla. Kannski þarf hún bara einhvern utan heimilisins til að deila lífi sínu og hjarta með, einhvern sem hún getur treyst fyrir hverju sem er og einhvern sem skilur hana eins og hún er í dag. Besta vin í öllum heiminum.

benóní.jpg

Benóní

 

Benóní er nágranni Jómars sem býr í næsta húsi við gistiheimilið, í stóra hvíta húsinu í hverfinu austan við Eystri Brú. Jómar fær nokkuð fljótt að kynnast honum og Benóní kynnir sér nýja íbúa hverfisins um leið og hann verður hans var. Það er gott fyrir Jómar þar sem þessi nágranni hans er trúnaðarmaður hverfisins. 

   Trúnaðarmenn eru einstaklingar á vegum Ráðhússins sem sendir eru til að búa í öllum hverfum Úlrikshafnar. Þeirra vinna er að þjónusta íbúa hverfisins sem þeir búa í með allt hvað varðar brot og erjur, styrki, félagslega aðstoð og almenn hagsmunamál hverfisins. Stöðuna tekur hámentaður einstaklingur sem vinnur vel með fólki.

 

Benóní er vel starfi sínu vaxinn. Hann þekkir lög og reglur borgarinnar og viðheldur þekkingu sinni vel. Hann er rólegur og rökhygginn og hann hefur brennandi áhuga á fólki og samfélaginu almennt. Jafn vel verður hann forvitinn þegar eitthvað dúkkar upp sem hann hefur ekki kynnt sér áður.

   Benóní vinnur mikið alla daga, nema fjóra daga á ári þegar hann biður fólk að ónáða sig ekki. Hann er góður trúnaðarmaður og leysir verkefnin sín vel og snyrtilega og oft á hann það til að leggja enn meira á sig til að hjálpa fólki sem þarf persónulega á hjálp hans að halda.

 

Það er að miklu leyti honum að þakka að hverfið er jafn friðsælt og vinalegt eins og raun ber vitni, því það var ekki alltaf svo. En hann kýs heldur að leysa vandamál á sanngjarnan og lástemdan hátt þótt það taki sinn tíma, frekar en að grípa til skindilausna eða harðra refsinga þar sem reiðin og óttinn leiðir ferðina. 

   Hann berst fyrir því sem skiptir hann máli, berst fyrir réttindum fólks og hann tekur upp hanskann fyrir þeim sem verða undir í lífinu. Jafn vel laðast hann að bágstöddu fólki sem þráir hönd til að halda í. Til að mynda er hann er fjórkvæntur og konur hans voru allar ambáttir áður fyrr.

Það er ekkert leyndarmál en fólk talar ekki um það hvaðan eiginkonur Benónís koma né þá staðreynd að þau eiga í erfiðleikum að eiga nokkra afkomendur. Allir vita þetta og þekkja harma heimilisins, en þessi staða er orðin eins hversdagsleg innan hverfisins eins og nokkuð annað.

   Þótt Benóní vinni mikið og þéni vel, þótt konur hans þurfi aldrei að vinna meira en þær kjósa sér nokkurn tímann aftur og þótt heimilið sé auðugt af vellystingum og ást, þá virðast þau ekki geta uppfyllt allar óskir sínar.

Benóní hefur tamið sér að gera ekkert í hugsanaleysi og hann reynir að mæta öllum vanda með ró og stillu. Svo þegar allt gengur upp færist bros yfir andlitið. Hann nær fram flestu því sem hann ásetur sér, og hann kann að sýna ákveðni og þrýsta á fólk þegar þess þarf. Þess utan á hann það til að smjaðra svolítið en það er sára saklaust og fær enn fleiri andlit til að brosa.

 

Jómar dásamar Benóní, með gáluglampa í augunum, alveg frá því hann sá hann fyrst og jafn vel frá því hann heyrði nafn hans fyrst. Jafn vel síðan hann var lítill strákur í Markhólum og þeir vissu ekki hvor af öðrum. Benóní er lifandi eftirmynd manns sem kom til Markhóla árum áður, með blá augu og svart hár og vasa fulla af gulli. Benóní er fyrirmynd Jómars, verndari, leiðbeinandi og jafn vel riddarinn á hvíta hestinum.

Nikki.jpg

Nikki bytta

 

Nikulás er helsti ógæfumaður og blóraböggull hverfisins austan við Eystri brú. Einhverskonar leiðindi og ónot virðast fylgja honum hvar sem hann dúkkar upp. Venjulegast fer ekki mikið fyrir honum en ef hann lætur sjá sig er hann iðulega drukkinn með flöskuna í vasanum.

   Jómar og Nikki bytta eiga ekki vel saman. Þeir líta niður á hvorn annan en Nikulás er vissulega sá andstiggilegri en andstiggð hans á Jómari er upp sprottin af sjálfsvorkunn og öfund.

Nikulás á fleiri fjendur í hverfinu og ber þar helst að nefna kaupmanninn, Jón Þjóst. Erjurnar þeirra á milli eiga sér langa sögu, alveg frá því þeir voru litlir og það er allt önnur saga. En Nikulás hefur alltaf verið svolítið skrítinn og aulalegur, alveg frá upphafi. Hann átti foreldra sem unnu mikið og líklega fékk hann ekki þá athygli sem hann þurfti þegar hann var að alast upp, en þau voru rík og keyptu honum gleði. 

Þegar hann stálpaðist komst hann í slagtog við heldur lélega námsfélaga sem spilltu honum og hvöttu hann enn frekar til að kaupa sér gleði. Þegar sá falski vinahópur tvístraðist og hann stóð einn eftir, vinalaus, rekinn úr námi og með sundurtætta sjálfsmynd var eina ráðið að kaupa sér enn meiri gleði.

   Seinna erfði hann auðæfi foreldra sinna en þá hafði hann áttað sig á að öll þessi aðkeypta gleði átti það til að fuðra upp í höndum hans. Núorðið kaupir hann sér bara gleði í flösku og stingur henni í vasann.

Eftir stendur skugginn af manni sem lagður var í einelti og fyrirgerði öllum sínum tækifærum í lífinu. Flestir uppnefna hann Nikka byttu, aðrir kalla hann bara Nikka, en þeir sem þekkja manninn vel og bera nokkra virðingu fyrir honum vita að hann vill bara láta kalla sig Nikulás.

   Sumt fólk vill sjá hann sigrast á erfiðleikum sínum en það er erfitt að hjálpa þeim sem ekki þiggur hjálpina. Þau skilja að Nikulás er bara venjulegur maður sem á svolítið bátt og hefur tekið nokkrar rangar ákvarðanir í lífinu.

Jómar ber enga virðingu fyrir honum. Frá því hann sá vesalinginn fyrst var eitthvað við hann sem fyllti hann ónotum. Jómari sýnist Nikulás óstöðugur og tillitslaus. Hann virðist ekki virða aðra í kring um sig og getur ekki haft stjórn á sér. En á maður ekki að vera góður við þá sem eru utangarðs? Eins og Benóní?

   Fólk hvíslar hollráðum til Jómars og segir honum að eltast ekki við Nikulás eða velta sér upp úr hans vandamálum og Jómar finnur það fljótt að auðvitað væri best að láta hann alveg vera. Því miður á byttan það til að dúkka upp hvar og hvenær sem illa stendur á. Jómar vill líta á hann hlutlausum augum en andstiggðarhróið vinnur sér svo sannarlega inn illhug flestra nágranna sinna, bæði meðal gamalla kunningja og nýkominna aðkomumanna.

hildisif1.jpg

Hildisif

 

Hildisif er fyrsta eiginkona Benónís, elsta hjónsystirin og húsfreyjan á heimilinu. Hennar helsta hlutverk er að halda röð og reglu á heimilinu, úthluta húsverkum, útrétta, halda samskiptum við þjónustuaðila heimilisins og halda utan um alla sjóði og fjármuni, heimilisins,bókhald og samninga.

   Hjarta hennar er stórt og hlýtt en erfiði sitt felur hún á bak við ískalda skapgerð. Hún er ekki aumingjagóð eins og eiginmaður sinn, ekki eins þolinmóð né skilningsrík. Hún skilur það sem hún vill skilja en allt annað nær ekki inn fyrir brynjuna.

 

Húsfreyjan er glögg og ákveðin með gott bein í nefinu. Hún bruðlar ekki með hrós en meinar hvert orð frá innstu hjartarótum þegar að þeim kemur. Hún brosir ekki til að þóknast öðrum, hún skefur ekki af gagnrýni sinni og hún liggur ekki á skoðunum sínum.

   En þrátt fyrir nöturlegt viðmót hennar meinar hún vel og ekkert vill hún gera annað en það réttasta og besta í stöðunni. Þótt hún virðist óvægin öðrum, þá eru hún eftir allt hörðust við sjálfa sig. Hún tekur á sig það sem aðrir eiga ekki skilið og fórnar ýmsu til að varðveita hamingju annarra.

   Þegar lífið tekur svolítið á finnst henni mikilvægt að geta stigið út í blómagarðinn sinn svo hún gleymi því ekki hversu vel er hægt að rækta upp eitthvað svona fallegt þrátt fyrir allt. Þar gleymir hún tímanum og hreinsar hugann.

Hildisif er reglufastasta persóna sögunnar, en þó á hún það til að brjóta sínar eigin siðferðisreglur ef hún ber rökin fyrir sér. Hún hefur gert sér fyllilega grein fyrir því hvar vald hennar liggur og hvað hún getur komist upp með. Annars kýs hún að hafa vaðið fyrir neðan sig og bægja frá öllum óvæntum uppákomum.

   Hún vill hafa vit fyrir þeim sem hún elskar og þannig tjáir hún ást sína. Þess vegna eru ráð hennar innileg og vel meint í hvert sinn. En hún tekur því sem höfnun ef fólk hlýðir ekki ráðum hennar. Ef fólk fylgir ekki boðum hennar finnst henni að fólk treysti henni sjálfri ekki. En traust verður ekki keypt. Eina ráðið til að bæta úr því er að gera betur.

Benóní er trúnaðarmaður hverfisins en Hildisif ef trúnaðarmaður Benónís. Til hennar kemur hann með allt sitt angur og vangaveltur og hann hlustar eins og hann best getur á ráð hennar og leyfir henni að leiða sig, þó undir hans eigin forsendum.

   Það er sama hvað þau jagast um, ást þeirra dvínar aldrei heldur eflist með árunum, enda þekkja þau hvort annað betur en nokkur annar gæti. Þótt þau séu oft ósammála í sínum málefnum ristir það grunt þrátt fyrir allt. Benóní gefur lífi Hildisifjar tilgang en þar á móti þarf hún stundum að stytta í taumnum til að halda honum á jörðinni.

Hildisif er límið sem heldur hvíta, stóra húsinu saman. Hún segir það sem erfitt er að segja og hún gerir það sem erfitt er að gera, svo allt endi vel. Það er að miklu leyti henni að þakka að fjölskyldan hefur haldist svo vel saman þrátt fyrir alla fortíðina og erfiðleikana. Hún er klettur og mikill verndari þeirra varnarlausu.

   Hildisif og Jómar eiga oft illa saman. Henni finnst hann óheiðarlegur og með illa mótaða samvisku, og hann tekur ekki til sín ráðleggingar hennar. Hún hefur ekki áhuga á honum eða hans átökum, hún vill ekki siða hann til né leiðbeina honum í þessu nýja umhverfi og enn síður vill hún taka hann inn á sig. En þau hafa bæði gott af því að læra að umbera hvort annað.

Hafliða.jpg

Hafliða

 

Hafliða er einnig gift Benóní og býr í næsta húsi við Jómar. Það fer ekki mikið fyrir henni. Hún lætur ekki mikið sjá sig. Hún vakir fram á nótt og sefur fram á hádegi og ef gesti ber að garði lokar hún sig af inni í herberginu sínu og bíður þá af sér.

   Sumum gæti brugðið við að sjá hana. Hún er grönn og föl og ekkert sérlega lífleg að sjá. Hún hylur sig meira en hjónsystur sínar, og meira en flestir aðrir í borginni, og hún velur að klæða sig í dökk og síð klæði eins og syrgjandi ekkja. Sumir sem sjá hana bregða fyrir segja að hún sé eins og svífandi vofa sem líður milli glugga hússins þegar rökkva tekur.

Í rauninni er hún sauðmeinlaus. Henni er ekki vel við fólk og henni er enn síður vel við sig sjálfa. Hún kýs að fela sig inni og stíga aldrei út í sólina. Hún vill fela sig og skömm sína og hrakfarir frá öllum öðrum. Hún vill fela hvað hún grætur mikið og hvað hún hefur gert öðrum. Hún lítur ekki vel út og henni finnst hún ljót og afskræmd.

   Suma íbúa hverfisins þekkir hún og stundum leyfir hún þeim að hitta sig í augnablik, en hún spjallar ekki. Hún horfir undan og reynir að hugsa ekki um hvernig fólk dæmir hana. Hún er sögð vera sefasjúk. Hún er full af sorg og eftirsjá og lygum og hún er ekki hamingjusöm. Hún gefur ekkert meira af sér. Ekki lengur.

 

Áður fyrr var meiri kraftur í henni. Hún var alltaf sefasjúk og vist hennar í ánauð hafði verið hræðileg, en hún var líflegri. Áður fyrr reyndi hún að bera af öðrum. Hún var viljug og setti markmiðið hátt til að sýna að hún væri nógu verðug og jafn vel dreymdi hana um að vera betri en aðrir.

   Hún buktaði sig og beygði fyrir aðra en hafði þó sterkar skoðanir.      Sérstaklega reyndi hún að ganga í augun á manninum sínum og reyndi að ná fram úr öllum væntingum hans. Hún vildi verða betri. Hún vildi að hann gæti séð að hún væri betri en nokkur önnur kona, og að þau ættu hvort annað og bara hvort annað, ein. Að þau gætu átt ástríkt heimili og stofnað sína eigin fjölskyldu. Eignast börn og verið hamingjusöm. En sá draumur rann út í sandinn og vonir hennar kulnuðu með hverju langa árinu sem leið.

 

Hafliða mátti þola margt áður. Hún þráði björgun sem loks barst. En hjarta hennar var enn svart. Vonir hennar voru glópavonir. Hún hafði séð heiminn öðruvísi fyrir sér. Hún hafði séð líf sitt í frelsinu í hillingum og hún vissi hvað hún vildi. En henni skjátlaðist. Henni mistókst.

   Þótt hún elski sjálfa sig ekki lengur og hafi kannski aldrei kunnað það, þá elskar hún aðra í kring um sig. Hún elskar manninn sinn. Hún elskar líka hjónsystur sínar þótt hún vildi óska að hún hefði aldrei ætlað sér að keppast við þær. Hún vildi hvergi annarstaðar vera og tórir enn fyrir lífið sjálft og fólkið sitt. Hún hefur lofað sér því að meiða engan framar. En hún þráir enn björgun.

 

Hún er frekar sein að taka Jómar í sátt út af eigin dutlungum en á endanum elskar hún hann líka. Hún leifir honum að sjá sig en hún spjallar ekki. Hún líður um húsið eins og dökkklædd vofa, lítur varlega til hans með gráum glyrnum en lítur svo undan.

   Jómar veit ekki alveg hvar hann hefur þessa konu. Hann skilur ekki sefasýki og hann skilur ekki einsemd hennar. Hann þekkir hana ekki. Hann er jafn vel stundum skelkaður á henni. Hann er kannski draughræddur. Og þegar hún leitar til hans rísa hárin á baki hans.

Þura.jpg

Þura

 

Þura er ein af eiginkonunum sem búa í stóra hvíta húsinu í hverfinu austan við Eystri Brú. 

   Hún reynir með eindæmum heiðarleg og samviskusöm, nema bara stundum. Hún hefur alltaf eitthvað fyrir stafni og getur ekki setið kyrr. Bros hennar prýðir hana hvert sem hún fer og skartar hún litlu skarði milli framtannanna og tveim litlum spékoppum til hliðar.

   Hún er fyrst til að grípa til verka ef eitthvað þarf að gera eða aðstoða nokkurn með nokkuð. Hún á það til að slúðra svolítið mikið og þegar hún hefur slúðrað eyrun af öðrum allan daginn sest hún niður á kvöldin með dagbókina sína og slúðrar í hana. En hún segir alltaf satt eða hér um bil.

Eins og aðrar eiginkonur Benónís er hún leysingi en ber það ekki með sér. Það tók hana þónokkurn tíma að venjast frelsinu og það kostaði hana sitt, en allt það vonda er að baki. Nú er eina ráðið að njóta lífsins og horfa björtum augum til framtíðar. Allt mun fara vel og rétt að lokum eftir allt saman.

   Þura og Dagmar eiga einstaklega vel saman en þess utan á hún marga vini og kunningja í kring um sig og fer í tíðar heimsóknir.

 

Hún hefur glatað allri fjölskyldu sinni og vinafólki úr fyrra lífi og hefur enga leið til að finna þau aftur ef það væri hægt. Hún hugsar oft til baka til þeirra sem hún eitt sinn þekkti en líklegast er best fyrir henni komið eins og staðan er. Það er ekki einu sinni víst að hún vildi líta aftur framan í þá sem hún missti. Þau vildu kannski ekki sjá hana heldur núna. Hún er ekki sú sem hún var áður. Hún er breytt, ekki lengur hún sjálf og ekki sama konan sem hún var þegar eiginmaður hennar og hjónsystur hittu hana fyrst. En þetta verður allt í lagi.

Þura hefur stórt hjarta og vill fylla það af ást. Hún unir sér vel í nýja lífi sínu, elskar fjölskyldu sína og vini, kettina sína tvo og kökurnar sem hún getur bakað hvenær sem hún kýs. Hún hefur fyrirgefið öllum allt sem gerst hefur svo hún geti andað léttar og borið sig vel. Það var hennar ákvörðun að fyrirgefa. Hennar persónulega markmið er að taka enga sekt með sér í gröfina.

þuru er vel við Jómar. Hann virðist henni svolítið barnalegur og hrekklaus. Það er jafn vel hægt að hlæja að honum. Jómari líkar vel við hana á móti, hvað hún er hlý og hvetjandi gagnvart honum, en það er þó alltaf eitthvað við hana sem slær hann út af laginu. Hann hleypir henni ekki of nærri sér. En hún reynir.

   Það er gott að eyða tíma með Þuru, vinna með henni, spjalla og spila. En það er vissara að tala varlega af sér í kring um hana, því hún er sling í að þefa upp lygar og ýkjur og það lýst henni ekki á. Hún vill hjálpa Jómari að verða betri maður og fyrirgefa.

bottom of page