top of page

Sautjándi áfanginn - Teikning III

Fyrsti áfanginn í ár var meiri teikning í fjórar vikur.


Fyrsta vikan fór í upprifjun og upphitun fyrir áfangann og önnina. Eftir það hófst þriggja vikna ferlisverkefni þar sem við einbeittum okkur sérstaklega að teikniaðferðum eða -áherslum sem okkur fannst skorta æfingu. Samhliða þessu öllu fengum við líka “orð dagsins” sem átti að hvetja okkur til að teikna eitthvað nýtt á hverjum degi. Orð dagsins máttum við túlka eins og við vildum, það mátti vera 10 mínútna skyssa eða fullunnin teikning, eitthvað til að koma okkur í gang og ögra okkur örlítið.


 

Mér fannst sérstaklega skemmtilegt að teikna orð dagsins og ég ákvað að teikna tvær myndir fyrir hvern dag og fyrir hvert orð notaði ég líka sömu áhöldin. Þarna leifði ég mér svolítið að gera bara það sem ég vildi og leifa orðunum að veita mér óheftan innblástur. Myndirnar urðu allar frekar ólíkar og það er áhugavert að fletta í gegn um þær eftir á.


17 orð (34 myndir)

  • Kaffi

  • Náttúra

  • Matur

  • Vatn

  • Lífvera

  • Ílát

  • Planta

  • Líkamspartur

  • Húsgagn

  • Útsýni

  • Steinn

  • Hurð

  • Tónlist

  • Skuggi

  • Ljós

  • Áferð

  • Gler


Hér getið þið séð þær myndir.



 

Ferlisverkefni

1. vika


Í fyrstu vikunni ákvað ég að æfa mig mest í umhverfisteikningum, bæði innanhúss og utan, þó aðallega utan. Ég reyndi að teikna sem mest á hverjum degi og flesta daga náði ég að teikna nokkra staði.


Ég ákvað að teikna umhverfi því ég hef lítið þjálfað mig í því og er þess vegna ekki eins fær í svoleiðis teikningum eða öfugt.


Hér má sjá dæmi um afrakstur viku 1.



 

Ferlisverkefni

2. vika


Aðra vikuna ákvað ég að teikna frekar raunverulegar andlitsmyndir þar sem ég er mikið gjarnari á að teikna fólk aðeins meira skrípó. Það auðvitað þjálfar alla teikningu að reyna á auga og hönd, og skilar sér líka í skrípókörlunum. Þessar myndir fannst mér örlítið meira krefjandi þar sem ég einblíndi á að ná þeim eins nákvæmum eins og ég gat og þess vegna náði ég oftast að klára hálfa til heila mynd á dag.


Í þessarri viku notaðist ég að mestu við ljósmyndir, annað hvort af netinu eða myndir sem ég tók sjálf, og ég fór sem minnst út í rokið og rigninguna.


Hér má sjá dæmi um afrakstur viku 2.



 

Ferlisverkefni

3. vika


Í þriðju vikunni og þeirri síðustu leit ég yfir það sem hafði valdið mér mestum hausverknum í fyrri vikunum og sá að mælingar voru það sem ég átti hvað erfiðast með. Þá ákvað ég að teikna uppstillingar dagana sem eftir voru, snögglegar skissur til að æfa betur þann þátt í teikningunni hjá mér.


Við erum með fullt af dóti í skólanum sem hægt er að hrúga saman og teikna og það gekk allt mjög vel.


Hér má sjá dæmi um afrakstur viku 3.







Þar með lauk þessum fjórum teiknivikum í skólanum. Áfanginn skildi eftir sig betri færni og meira öryggi í teikningu og 65 blaðsíðum í skissubók.


Comments