top of page

Tuttugasti áfanginn - Hreifigrafík III

Ég vil meina að þessi síðasti áfangi á önninni hafi verið hálfgerður sprettáfangi þar sem við vorum að vinna í Adobe After Effects í aðeins tvær vikur.


Ég segi sprettáfangi þar sem það tekur mann oftast mikið lengri tíma að vinna í After Effects heldur en í öðrum forritum sem við notum. Þetta er voðalegt púsl og aðeins nokkrar sekúndur af myndbandi tekur marga klukkutíma að búa til.


Verkefnið fannst mér samt passa vel fyrir áfangann og eitt af því sem mér þykir best að hafa fengið út úr áfanganum er að læra að rendera/flytja verkefnin úr forritinu á spilanlegt myndbandsform á nýjan og betri hátt. Fyrir þann sem ekki veit og kann til þá geta mjög stutt myndbönd orðið mjög þung fyrir tölvuna og skrárnar telja í gígabætum. Ég lærði að laga það. Hjúkk.


Í þessum áfanga vorum við að vinna með “motion typography” eða texta sem hreyfist með hljóðupptökur sem unnið er með.


Fyrst tókum við smá upphitun og bjuggum til ca. 10 sek. myndband. Ég valdi hljóðbút úr myndbandi á Youtube rás sem Thoraya heldur uppi þar sem hún tekur alls kyns viðtöl við ókunnugt fólk úti á götu, oft í almenningsgarði. Sumir tala um lífsreynslu sína eða viðhorf sitt og þetta eru allt mjög einlæg viðtöl sem gætu snert annað ókunnugt fólk úti í heimi. Ég valdi brot úr myndbandi þar sem fólk stígur upp að míkrafóninum og segir frá leyndarmálum sínum, en svo ræður það hvort það líti um öxl og afhjúpi andlitið á bak við leyndarmálið eða gengur aftur burt sem ókunnugur einstaklingur og hverfur í fjöldan. Stúlkan sem talar í myndbandinu hjá mér gekk burt.Mæli með að skoða þessi viðtöl hennar sem hægt er að finna hér á Youtube eða á hlaðvarpinu hennar Hey, Stranger! sem líklegast er hægt að finna nánast hvar sem er.


 

Seinna myndbandið átti að telja heila mínútu, og þar sem upphitunarverkefnið var svolítið rólegt og alvörugefið langaði mig að hrista aðeins upp í hlutunum. Ég valdi mínútulangan hljóðbút úr gömlum raunveruleikaþáttum sem kallast Bad Girls Club.

Ég veit ekki hvort þessir þættir séu enn í framleiðslu eða hvort þetta sé vonandi allt orðið steindautt, en þátturinn fjallar um hóp ungra kvenna sem koma saman í stórri villu og keppast svo um að sanna hversu miklir óargaseggir þær geta verið. Þegar svona margir óstýrlátir einstaklingar með stórt skap og lítið egó koma saman upphefjast auðvitað mikil rifrildi og jafn vel slagsmál. Um það snýst þátturinn. Eðal sorpafþreying.En nú er kominn tími á jólafrí svo við getum nú öll notið hátíðanna og hlaðið batteríin og svo byrjar fjörið aftur eftir áramót.


Comments


bottom of page