top of page

Ellefti áfanginn - Leturgerð

Þetta var fyrsti áfanginn þar sem við köfuðum dýpra niður í leturnotkun og letugerðir. Letur er mjög stór partur af grafískri hönnun, hvort sem hönnuðir þurfi að skapa eða finna letur til að nota á viðeigandi hátt hverju sinni og það er mikilvægt að hafa góða tilfinningu fyrir því.



Áfanginn hófst á smá upphitunarverkefnum þar sem við horfðum á heimildamynd og glærur um lögmál leturs og þróun þess í gegn um tíðina. Við veltum fyrir okkur mismunandi leturgerðum og gerðum ýmsar æfingar til að æfa augað í að greina stafi betur í okkar nánasta umhverfi.


 

Næsta verkefni snérist um að nota letur á misjafnan hátt og fá þannig tilfinningu fyrir því hvað virkar best og hvers vegna. Þetta er plakatið sem ég hannaði í því verkefni. Það fyrsta skartar bara einni leturgerðir/fonti, annað plakatið hefur tvær leturgerðir og á þriðja plakatinu höfðum við frjálsar hendur og máttum hafa letrið eins villt og við gátum. Þá ákvað ég að bæta þriðju og fjórðu leturgerðinni við.



 


Þriðja verkefnið var það lengsta og þá vorum við sett í að hanna okkar eigið letur. Til þess notuðum við ókeypis forrit á netinu (sem hægt er að borga fyrir og fá betri þjónustu) sem var mjög auðvelt að nota. Vefsíðan útskýrir sig svolítið sjálf. Bæði hvernig á að færa leturhönnunina inn í forritið, virkja það og senda það aftur úr forritinu svo hægt sé að nota það eins og hvert annað letur.


Ég náði að klára fyrra letrið mitt, en það var nokkuð einföld hönnun. Þar hannaði ég bara hástafi, nokkur algeng tákn og tölustafi. Þegar ég bjó það til byrjaði ég ferlið á að krassa upp einföld form með penna á blað, einhverjar línur og hringi. Svo náði ég teikningunni inn í Photoshop og þar notaði ég formin til að mynda stafina í letrinu.



Mig langaði til að hafa stafina mjög hráa og halda þessarri náttúrulegu áferð sem blekið á grófa pappírinn skapaði og mér fannst það heppnast nokkuð vel. En þegar ég setti letrið inn í forritið góða komst ég að því að allt skilar sér sem vektor þaðan og forritið vinnur eingöngu með svartan og hvítan, svo allir gráu tónarnir, grófa áferðin og blæbrigðin í letrinu hurfu að mestu. Ég er ekkert ósátt við lokaútkomuna, en þetta er ekki útkoman sem ég lagði upp með í upphafi.



Seinna letrið valdi ég að hanna alfarið í Illustrator enda notar maður allt aðra vinnutækni þar sem ég er ekki eins hefluð í og þar með varð það töluvert meiri áskorun. Þar vildi ég upphaflega hanna alla hástafi og lástafi, tákn og tölur, auk þess sem ég vildi búa til enn aðra skrautlegri útgáfu af hástöfunum. Það var kannski heldur bjartsýnnt, en ég náði að hanna nokkra stafi í þrem útgáfum skraut-hástafir, hástafir og lástafir, sem ætti að útskýra ágætlega það sem ég hafði í huga í upphafi.



Enn og aftur fór forritið að stríða mér aðeins og gerði ekki eins og ég vildi. Í fyrsta lagi las það skrautstafina ekki rétt og klippti skrautið misjafnlega af þeim flestum, og í öðru lagi tókst því að bjaga til línurnar hér og þar svo sumar beinar línur enduðu í hálfgerðum spíssi.



Mæli samt mikið með þessu forriti, sérstaklega til að leika sér svolítið, en gott að hafa á bak við eyrað að það gæti hugsað hlutina örlítið öðruvísi en maður sjálfur (að minnsta kosti fría útgáfan). Þetta er mjög einfalt forrit en auðvitað eru til mikið fullkomnari verkfæri til að skapa og hanna nýjar leturgerðir.


Þetta var mjög þarfur og góður áfangi að mínu mati og nú hafa einhverjar nýjar dyr opnast.




bottom of page