top of page

Sextándi áfanginn - Lokaverkefni II

Í síðasta áfanga ársins unnum við aftur sem áður lokaverkefni sem sýnt var á Lokasýningu Myndlistaskólans á Akureyri í Ketilhúsinu á Listasafninu á Akureyri 7.-15. maí.


Í ár var þemað makkarónuumbúðir (makkarónukökur en ekki makkarónupasta). Við áttum að hanna ímyndað fyrirtæki með ímyndaðar kökur sem seldar yrðu í verslun eða sælkerabúð. Við hönnuðum nafn og lógó fyrir vöruna (og fyrirtækið), allar umbúðir fyrir vöruna og að lokum auglýsingaplakat fyrir vöruna.



Mig langaði að breyta aðeins til þar sem bæði hönnun lokaverkefnis síðasta árs og verkefni flestra áfanganna núna í ár var svolítið fígúratíf og hanna eitthvað þar sem engar lifandi verur komu fyrir. Frekar vildi ég einblína á munstur og liti.


Ég vildi halda munstrinu flæðandi og passa að allir kantar á pakkningunum pössuðu saman svo hvergi kæmi skurður eða misfelling í munstrið og það var ágætis áskorun fyrir sig.



Upphaflega ætlaði ég að hanna fjórar pakkningar, allar með sína eigin munsturhönnun en halda mig þó alltaf við sömu litina. Pakkningarnar áttu að draga innblástur sinn af misjöfnum tímum dags, Ótta, Morgunn, Nón og aftan.


Að lokum valdi ég þó að gera bara tvo pakka, Ótta (kl. 3 að nóttu) og Nón (kl. 3 að degi). Nöfnin byggja á gömlu tímunum sem notaðir voru fyrir algengi skífuklukkunnar.


Ótta er dökki pakkinn sem táknar nóttina og Nón er ljósi pakkinn sem táknar daginn.


Ég hannaði pakkana með þá hugmynd að varan yrði seld í matvöruverslun sem eins konar gjafavara. Hver pakkning inniheldur fjórar kökur, allar með sama bragðinu. Þessi vöru væri þægilegt að grípa með sér og gefa í tækifærisgjöf t.d. með blómvendi. Fyrir mér eru makkarónukökur jafn mikil munaðarvara og konfekt.



Mig langaði þó að brjótast aðeins út úr þeirri algengu markaðsímynd að makkarónur séu svolítið dúkkulegar eða snobbaðar og mig langaði að pakkningarnar höfðuðu mögulega til aðeins víðari markhóps.



Ég ákvað að hafa hverja pakkningu bara með fjórum kökum í, pakkningin sjálf væri einföld og sterkleg með plasti að innan og kökurnar allar með sama bragði svo framleiðslan hefði mögulega verið ögn kostnaðarminni. Þar að leiðandi gætu fleiri hugsað sér að kaupa svona munaðarvöru ef verðinu gæti verið haldið svolítið niðri. Möguleg praktík.



Núna í ár fengu allir nemendur grafískrar hönnunar það verkefni að vinna umbúðir fyrir makkarónur og við áttum að finna makkarónur sem hentuðu hönnuninni okkar til að fullkomna uppstillinguna.


Við vorum það lukkuleg að mæðgurnar hjá Sykurverki gáfu okkur kökur fyrir sýninguna í hvaða lit sem við vildum. Sykurverk er kaffihús á Akureyri sem sérhæfir sig í fallegum, handgerðum og handskreyttum kökum. Makkarónurnar hjá þeim eru allar handgerðar og reglulega breyta þær um liti og bragðtegundir hjá sér.



Nú hef ég lokið öðru ári á listhönnunardeild (grafískri hönnun) í Myndlistaskólanum á Akureyri. Einkunnirnar voru frábærar og reynslan enn betri.


Gleðilegt sumar. Í haust hefst þriðja og síðasta námsár mitt í grafískri hönnun.


bottom of page